top of page
  • harmony351

Kominn aftur á einn af uppáhaldsstöðunum


Fyrir tæplega 20 árum þegar við bjuggum á Staðarhúsum, létum við stífla tvö stór framræst vötn á jörðinni og á merkjum hennar og jarðarinnar Gufuár, sem við búum á núna. Endurheimtum við það bæði vötnin Rauðutjörn og Meratjörn og votlendið þar í kring.

Eftir kuldatíð undanfarinna vikna eru nú öll vötn ísi lögð – þessi líka - og hægt að ríða á þeim, sem ekki hefur verið mikið gert af undanfarin ár. Ísinn á þeim hefur einfaldlega ekki verið nógu traustur þar sem frostakaflar hafa verið of stuttir. Veðrið þessa helgina hér vestanlands er svo sannarlega búið að leika við okkur og vetrarfegurðin á slíkum dögum engu lík. Og úr því tíðin er búin að vera svona góð til ísframleiðslu og veðrið svona flott þá náttúrurlega var ekki annað hægt en að nýta tækifærið og þetta flotta reiðfæri og kenna hrossunum að meta ísinn – því ís á vatni er ótrúlega skemmtilegt undirlag til að ríða á.

Því var það að í gær tókum við nokkur hross hingað heim til þess að ríða þeim hér í dag – á þessum flotta ís sem ekki er ósennilegt að fari nú að hopa enda fer nú vonandi senn að vora. Fyrst var reyndar hitað upp á Vatnshamarsvatni f.h. með Jóni á Báreksstöðum með einn fola sem aldrei hafði farið á ís áður. Og svo var lagt í hann hér og þær Perla og Hrund prófaðar á ísnum á Rauðutjörn í blíðunni.

Og mikið rosalega er þetta alltaf gaman – hrossin – ísinn – veðrið - umgjörðin.

Þvílíkt og annað eins – ekkert sem jafnast á við þessa dýrð !


Comments


bottom of page