top of page
  • harmony351

Prívatið

Ég tel mig vera konu dagfarsprúða og seinþreytta til leiðinda – öllu jöfnu. Eitt er það þó sem laðar fram mínar verstu kenndir og eyðileggur klukkutíma og jafnvel daga og það er bókhaldsvinna: skatturinn, virðisaukaskatturinn, búfjárskýrsluhald hverskonar og hvað það nú heitir allt þetta exelskjalasafn sem fólki er gert að fylla út og senda skriffinnum stofnana ríkisins til að skaffa þeim eitthvað að gera. Í stuttu máli þá getur þetta algerlega gert mig vitlausa! Sérstaklega þar sem ég er örugglega með einhverja greiningu sem flokkast mætti sem stærðfræðifælni eða talnablinda eða exelógeð eða eitthvað annað í þá veruna - nema það sé barasta þetta allt saman. Ég hallast helst að því :/

Ég var að velta því fyrir mér hvernig stæði á því að undanfarnar nætur hef ég átt erfitt með svefn og verið einhvernveginn ómögulega án þess að geta fest á því fingur en svo rann það upp fyrir mér í dag þegar ég dró upp heimilismöppurnar og fór að raða í þeim pappírunum og skrá niður. Það á semsagt að skila vsk á mánudaginn og undirmeðvitundin vissi af því þó yfirmeðvitundin væri á fullu í jólagjafapælingum og öðru mikilvægu. Heimilisfaðirinn þekkir sína konu og hefur látið lítið fyrir sér fara það sem af er degi, rosalega upptekinn í hesthúsinu en fer sjálfsagt að láta sjá sig bráðum enda líður að kvöldmat. Hann vill ekki lenda í því að þurfa að gera þessa hluti sjálfur, betra og heilsusamlegra fyrir heimilisbókhaldið að konan geri þetta, þó hún sé brjáluð. Benni er semsagt ennþá verri í exelskjölum en ég, svo það færi illa ef hann tæki þetta verk að sér. En til að létta mér aðeins lundina og komast frá þessum ófögnuði þá fór ég í góða veðrinu labbandi í fjárhúsin en sakir þess hversu mikið ólíkindatól áin Gufuá er komst ég ekki yfir hana styðstu leið heldur þurfti að taka krók og fara fyrst niður að hliði og þar yfir frosið vaðið á ánni. Hvar ég skunda niður að hliði með forláta laxastaf í hendi mér til halds og trausts á svellinu og til að stinga í laxa sem hugsanlega eru enn í ánni – eða þannig – blasir við mér sjón sem gerði mig næstum ennþá pirraðri en virðisaukaskýrslupappírarnir. Fyrir innan hliðið, sem á stendur Private með ágætlega skýrum stöfum, hef ég verið að planta trjám undanfarin tvö sumur. Þau eru orðin það stór að þau standa uppúr snjónum a.m.k. sum þeirra og vel sýnileg þeim sem ekki eru blindir eða verulega sjónskertir. Hvorki skiltið, hliðið né trén hafa þó hindrað þá sumarbústaðaíbúa sem þótti brekkan fín til að draga þangað upp snjóþotu og nota hana til að renna sér. Svona til að taka Pollíönnu á þetta þá vildi svo vel til að þessir sömu aðilar voru farnir af staðnum þegar mig bar þar að með laxastafinn, annars hefði kannski ekki farið svo vel. Það er alveg hægt að afsaka fólk með athugunarleysi og einhverju sliku – mér er bara slétt sama. Þetta er nefnilega alls ekki í fyrsta skipti sem fólk er að traðka á trjánum sem ég er að hafa fyrir að eyða tíma, peningi og vinnu í að setja niður – innan merkts og afgirts eigin landssvæðis. Og þessu fólki finnst það barasta allt í lagi. Pælir ekki í því. Prílast jafnvel yfir læst hlið með börn, hunda og alles. Fullorðið fólk ! Eins og allt sé bara í lagi þegar það kemur í sveitina. Nema ef ske kynni að rolla valsaði inná lóð hjá þeim – vei – það gengur náttúrulega engan veginn eða að hrossaskítur sjáist á veginum. Veit ekki hvort það myndi prílast svona inní garða í Reykjavík, efast reyndar um það. Ég pirraðist mikið yfir þessu og heimsku fólks og frekju yfirleitt á meðan ég gekk upp að fjárhúsum, gleymdi því meðan ég var að gefa en það gekk svo allt í endurnýjun lífdaga þegar ég labbaði tilbaka sömu leið og horfði uppí brekkuna bölvandi. Kom heim og settist yfir skattapappírana og bölvaði dáldið meira þangað til mér tókst að klára bókhaldið og gat hætt að eyða lífi mínu í eitthvað sem ég fæddist svo greinilega ekki til að gera. Og hana nú!



Að búa í nábýli við sumarbústaðahverfi ætti nú ekki að vera neitt stórmál og er það í sjálfu sér ekki. Fyrsta árið hérna þurftum við þó að gera fólki það ljóst með mjög skýrum hætti að hér byggjum við núna, þetta væri bújörð og heimili og ekki almenningur fyrir þá sem væru í bústöðunum. Það væri semsagt ekki í boði að liggja á gluggum eða skáskjóta sér milli bílanna hér á hlaðinu til að komast styðstu leið upp að Fossi eða bara í göngutúr. Að það væri komið inná prívatsvæði þ.e. lóðina okkar sem hér búum. Sumum þótti það fúlt en flestir tóku því vel og svo venjast hlutir og menn finna aðrar leiðir t.d. hinumegin við ána á veiðiveginum – sem er jú tilvalinn til að ganga á. Nújæja. Það er fleira sem fylgir nábýlinu við sumarbústaðina – t.d. sú árátta sumra sem þar eru að fóðra kettina okkar og halda að þeir séu tíndir villikettir sem þurfi að fara með hið snarasta í Kattholt þegar það snýr aftur til síns heima eftir bústaðadvöl. Ég segi bara að þetta fólk þekkir ekki ketti eða hvernig þeir haga sér. Þeir eru nátturulega tækifærissinnaðir og fara bara þangað sem þeir fá þjónustu. Einhverntímann hefur einhver farið að gefa þeim og þeir tékka þá aftur ef fólk er í húsinu og svo áður en nokkur veit af eru þeir komnir inn og haga sér eins og þeir eigi þarna heima. Ég get lofað ykkur því að þeir eiga heimili og hafa það fínt þar – þeir eru bara að tékka hvort það sé eitthvað betra í boði í bústöðunum og stundum er það kannski svo. Það er samt skítt að þurfa að vera stressaður eftir hverja helgi hvort kettirnir verði komnir til Reykjavíkur eða skili sér heim þegar fólk fer tilbaka. Einn köttur frá okkur hvarf og það hefur alltaf verið grunur minn að hann hafi verið tekinn með suður enda með eindæmum kelinn og mannelskur. Og fyrst ég er nú í þessu stuðinu þá kemur hér rúsínan í pylsuendanum varðandi bústaðahverfið eða hverfin skyldi ég öllu heldur segja því þetta á almennt við um bústaðahverfi á landinu. Það eru flugeldarnir ! Það finnst sumum það nefnilega svo fáráðnlega flott hugmynd að skella sér í bústað með flugelda og sprengjur í farteskinu – prumpa því öllu upp í loftið þegar maður er í stuði til þess og fara svo í heita pottinn og hafa það huggulegt. Kannski sama athuganarleysið og hrjáir fólkið sem var að renna sér í brekkunni í dag – ekkert illa meint, bara svo svakalega gaman. Örugglega gaman fyrir það en alls ekki fyrir nærliggjandi sveitabæi og búsmalann þar. Þar hafa orðið ófá slys á skepnum af völdum sprenginga og ljósagangs í gegnum árin. Sumt hefur ratað í fjölmiðla ef þar hefur orðið tjón á fólki t.d. þrefalt banaslys ef ég man rétt á Kjalarnesi eftir flugeldasýningu á Menningarnótt í Reykjavík – þar sem hross fældust út á þjóðveg 1 í veg fyrir bíl. En það eru líka skepnur sem fælast ofaní skurði, í girðingar, pípuhlið, láta fóstrum, rífa niður girðingar og tínast og ýmislegt – sem almenningur kannski veit minnst um. Bændur hafa ekki verið nógu duglegir að láta það heyrast – það tjón, sú vinna og sá tími sem í það fer að reyna að lagfæra það sem brotnar þegar fólk er bara að fara út á land til að hafa gaman. Ég verð því satt að segja mjög ánægð ef hætt verður að selja stóra flugelda til almennings útaf þessu sem og öðru miður góðu sem þeim fylgja.

Jæja, þetta fer nú að verða komið gott. Skapið heldur að stillast enda búin að reikna út virðisaukaskattinn og verð örugglega bara kát í tvo mánuði þar til næst kemur að vsk-skilum.

Ég vona að aðventan verði ykkur gleðileg og góð. Látiði kettina mína í friði, ekki renna ykkur á trén mín og reyniði bara að haga ykkur almennilega og bera virðingu fyrir bændum og því sem þeir eiga og standa fyrir <3












Comments


bottom of page