top of page
  • harmony351

Haustverkin

Það haustar að í rólegheitunum í Borgarfirðinum eftir sólríkasta sumar sem elstu menn muna. Þó kominn sé miðjur október er enn verið að heyja, tún eru græn og þau ræktarlegustu jafnvel enn að spretta og ég er hér að tala um Ísland, ekki Mið-Evrópu.


Við, sem erum svo lánsöm að fá að lifa og hrærast í tengingu við náttúruna keppumst við að klára þá hluti sem þarf áður en vetur gengur í garð og það frystir. Ýmiskonar frágangur á vetrarforða bæði fyrir skepnur og menn, viðgerðir á húsum, smalanir, girðingarvinna ofl. Nóg að gera á meðan hrossin fitna sældarleg lítið brúkuð í hausthaganum og dagurinn styttist. Allt er allgott og fyrir það ber að vera þakklátur.

Eitt af verkefnunum sem ljúka þarf núna á haustdögum er gerð nýrrar heimasíðu Inharmony.is sem núna er greinilega komin það langt að hún er farin í loftið. 

Þar er að finna ítarlegar upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna sér það sem við ábúendur á Gufuá höfum að bjóða svosem hnakka, reiðkennslu og handverk tengt íslenskum hestum og landbúnaði. 

Facebooksíðan okkar verður áfram virk og við reynum að vera dugleg að setja þar inn sem oftast það sem þangað á erindi. 

Við erum svo heppin að eiga marga fylgjendur víða að úr heiminum sem hafa áhuga á að vita hvað við erum að gera, kaupa það sem við erum að selja, hlusta á hvað við höfum að segja, fá innsýn inní hvað við erum að hugsa, upplifun okkar og hverju við viljum miðla úr tilverunni hér uppi á skerinu góða. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.  Þetta er fólk sem þyrstir í upplýsingar, fróðleik, sögur og myndir af íslenska hestinum, íslenskri náttúru, íslenskri sveit, af íslensku fólki – öllu því sem er okkar ástríða og lífsstíll.  Við erum sögumenn við Benni og við munum auðvitað segja sögur á þessar vefsíðu. 

Íslenski hesturinn og allt það sem honum fylgir þekkir engin landamæri og þær upplifanir sem samfylgdinni við hann fylgja eru uppspretta endalausrar gleði þeirra sem hans njóta. Sumum nægir að hafa hann í landslaginu sem hagaljóma, aðrir fá kikk útúr því að hlusta á hann tyggja fóðrið þegar hann er kominn á hús á veturna eða fylgjast með honum í leik með öðrum hestum. Enn aðrir brenna fyrir að sjá hvernig ræktunarmarkmiðin sem lagt var upp með árið áður líkamnast að vori í fallegu folaldi og margir reyna sig við að byggja upp samskipti við ótamið tryppi. Allflestir sækjast eftir að skapa skilning og samvinnu manns og hests, eignast vin, sálufélaga, kennara, ferðafélaga, reiðhest, gæðing.  

Það skiptir ekki máli hvernig við nálgumst hestinn, án hans væri lífið svo miklu, miklu tómara, þessi heimasíða ekki til, ég væri örugglega ekki að skrifa þessar hugleiðingar og sennileg að drepast úr leiðindum einhversstaðar. 

Við skulum bara muna að segja takk. Og við skulum ekki gleyma að segja takk við hann sjálfan fyrir allt það sem hann gefur okkur meðvitað og ómeðvitað og við tökum, - oft sem sjálfsögðum hlut, af því við getum það.

Og að lokum, takk fyrir að lesa. Við vonum að þið finnið eitthvað við ykkar hæfi á síðunni og hlökkum til að leggja inní veturinn með ykkur með ný og spennandi verkefni framundan. 

Sigga & Benni

Comments


bottom of page