top of page
harmony351

Breytingar



Eitt af því sem ekki verður umflúið í lífinu eru breytingar. Og á þessum skrítnu tímum sem við nú lifum er þetta orð örugglega orð orðanna – því við lifum nú tíma þvílíkra breytinga á nær öllum sviðum tilverunnar að annað eins hefur sjálfsagt varla gerst í mannlegri tilveru. Enginn fer varhluta af þessari staðreynd, og þar með ekki við heldur. Breytingarnar verða bæði utan þess sem við fáum við ráðið en einnig innan. Í lífi og tilveru okkar Benna hafa verið miklar breytingar undanfarin ár, svo mjög að okkur sjálfum – hvað þá öðrum hefur þótt nóg um. Og enn eru að verða stórar breytingar hjá okkur.

Við höfum ákveðið að hætta að bjóða uppá InHarmony Retreat sumarnámskeiðin sem við höfum verið með, en fara í staðinn útí ritstörf, handverk og annarskonar ferðaþjónustu tengda umhverfi og náttúru. Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart, við höfum verið að þokast meira og meira í þá áttina undanfarin ár og helst í hendur við skógræktaráform og High nature value farming sem við erum að vinna í að verða hluti af.

Nú erum við byrjuð að undirbúa sumarið framundan og komum til með að flétta saman í skemmtilegan pakka upplifun og fræðslu fyrir fólk – bæði íslendinga og erlenda ferðamenn hérna á Gufuá í stuttum 1-2 klst. heimsóknum. Þar mun fólki gefast kostur á að kynnast landinu og búskaparháttum hér og þeim sem á jörðinni búa þ.m.t. búsmalanum okkar. Njóta samveru við hesta, kindur, geitur, hunda og ketti svo eitthvað sé upp talið undir leiðsögn okkar.

 

Eins og áður munum við leggja okkur fram um að gera hverja heimsókn að gæðastund fyrir þátttakendur, ógleymanlegri heimsókn fyrir þá sem eru á ferðinni og langar að öðlast einstaka upplifun úr íslenskri sveit.

Óhjákvæmileg hliðarverkun þess að við hættum með reiðnámskeiðin okkar er að nú eigum við allt í einu nokkur hross sem við höfum ekki hlutverk fyrir í okkar starfsemi lengur. Þau verða því seld. Þetta eru hross á aldrinum  8-12 vetra, vel tamin reiðhross sem búin eru að standa sig frábærlega með gestina okkar. Traustir, verðmætir hestar eins og allir óska sér. Þeir sem eru að leita að þannig hestum geta haft samband við okkur, helst sem fyrst því fyrstur kemur og fyrstur fær.


Comments


bottom of page