InHarmony
Live the life you love, love the life you live
Gufuá
Gufuá er staðsett rétt norðan við Borgarnes. Við keyptum jörðina árið 2018 en síðasti ábúandi flutti þaðan árið 1964. Hún hefur verið í eyði síðan þá. Þegar við svo ákváðum að setjast þar að þurfti að byrja algerlega frá grunni því ekkert var til staðar nema jörðin sjálf og eitt lítið, gamalt fjárhús.
Gufuá er ákaflega falleg jörð, með klettaborgum og birkikjarri, einu stöðuvatni og áin Gufuá rennur um hana.
Aðalreiðleiðin milli Þingvalla og Snæfellsness liggurí gegnum jörðina og þar er einnig að finna aðrar frábærar reiðleiðir í allar áttir, lausar við umferðahættu.
Gufuá hentar frábærlega vel til tamninga og reiðkennslu. Stutt frá öllu en samt útúr.
S
Sumarið 2019 hófum við ábúendur á Gufuá í samvinnu við Skógræktina yndiss-skógrækt á hluta jarðarinnar (ca.70 ha). Áætlað er að þetta verkefni verði í gangi næstu 10 árin. Annan hluta jarðarinnar höfum við tileinkað verkefninu Landbúnaður og náttúruvernd (LOGN) . Markmið og tilgangur þess verkefnis er að kanna möguleika á samþættingu landbúnaðar og náttúruverndar auk þess að greina tækifæri, hindranir, samlegðaráhrif og mögulegan ávinning af náttúruverndaraðgerðum á landbúnaðarsvæðum. Þetta verkefni hefur verið í gangi erlendis um allnokkurt skeið og komin reynsla á það þar, en Gufuá er meðal fyrstu jarða sem fá að taka þátt í því hér á landi.
Á Gufuá er stundaður ferðaþjónustutengdur búskapur. Þar eru haldin reiðnámskeið og því eru hross á staðnum þó ekki sé um að ræða mikla hrossarækt. Flestöll hrossin sem við notum í námskeiðin okkar eru þó ræktuð af okkur sjálfum. Auk hrossa er fjölbreyttur annar bústofn svosem geitur, kindur, hænur, endur, hundar og kettir.
Sjálfbærni og samspil við náttúruna er grunnur að búskaparháttum á Gufuá, með aðferðir vistræktar (permacultur) að leiðarljósi.