Ég opna útidyrahurðina og geng út í íslenska vormorguninn. Kalsarigning og belgingur taka á móti mér þegar ég kem fyrir húshornið. Það er frekar kalt, hrossin standa í höm í skjóli við klettana og nýlega rúnum rollunum dettur ekki einu sinni í hug að stinga hausunum út um opnar fjárhúsdyrnar, þar sem þær ganga við opið.
Samt er kona ánægð með þetta veður, rigningin er lanþráð og loksins sést í græna slikju færast yfir landið. Birkið, sem ekki lætur svo auðveldlega plata sig, er að byrja að springa út.
Og þar sem ég geng í áttina að útihúsunum þá gerist það, eins og fyrir galdur, að mér er fyrivaralaust á broti úr sekúntu kippt aftur í tímann nær hálfa öld (mætti halda að kona væri að verða gömul !), þar sem ég sem stelpa er á leiðinni að gá til lambánna í sveitinni norður í Skagafirði. Lyktin í loftinu, þessi lykt sem bara finnst á vorin þegar jörðin er að lifna og lífið að kvikna aftur eftir hvíld vetrarins. Jarðarlykt. Það var hún sem gerði galdurinn. Þessi sama lykt og kveikti óstöðvandi þrá í brjósti stúlkubarnsins sem sat í skólastofunni fyrir sunnan fyrir 50 árum og fann að vorið var komið fyrir norðan. Og eirði ekki lengur yfir bókunum heldur varð að hlíða kallinu. Eins og hjá strokuhrossi var stefnan komin og áttin var bara ein. Ég var þess ómeðvituð að ég hafði ekki fundið hana frá því sl.vor og vissi ekki hvað ég saknaði hennar fyrr en rigningin vakti lífið og jörðin, í skjóli nætur sleppti ilmkúlunum sínum útí vindinn sem blés þeim uppí nefið á mér. Yyyyndislegt <3
Ég geng áfram, hugsandi á meðan, hvað það sé merkilegt að kona skuli allt í einu endurlifa staði og stund sem voru löngu djúpt grafin einhversstaðar í huganum og gleymdir þar að auki – bara af því að finna ákv. lykt. Og hver kannast ekki við eitthvað svipað ?!
Og þar sem ég dvel í angan löngu liðinna daga flýgur upp stelkur og lætur vita af sér. Það er þá sem ég átta mig á því að það er ekki allt eins og það ætti að vera. Fyrir þessum nær 50 árum hefði á slíkum morgni ekki heyrst í einum stelk heldur 10 eða 20 eða jafnvel 50 slíkum. Og fullt af öðrum fuglum þeim til viðbótar í stórsinfóníu og fuglakór. En hér er einn stelkur flögrandi í leit að félagsskap. Og þá rifjast það upp að síðasta vor og sumar var líka svona tími, þar sem allt of fáir fuglar voru á ferð. Langvarandi þurrkatíð hér vestalands gerðu það að verkum og satt að segja sá ég enga unga komast á legg hér í kring að undanskyldu nokkra úr einu rjúpuhreiðri.
Og kona fer að hugsa, eins og gerist á göngu, um samhengi hlutanna, lífsvefinn og vefnað okkar mannanna í honum. Það rifjast upp að fyrir tæpum 60 árum kom út bók eftir vísindakonuna Rachel Carson sem hét ,,Raddir vorsins þagna”. Bók þessi var tímamótarit, þar sem höfundurinn var að benda á þá staðreynd, að ef eiturefni og ýmis varnarefni m.a. í landbúnaði yrðu notuð áfram með þeim hætti og þá var orðið, myndu skordýr drepast í stórum stíl og það síðan hafa áhrif á aðrar lífverur t.d. fugla sem á þeim lifa. Þeir verða jú að hafa eitthvað til éta blessaðir. Hún var í raun að setja verk okkar mannanna í samhengi við heildarmyndina, sem við svo mörg virðumst halda að við stöndum fyrir utan. Mörgum þótti þetta óþarfa móðursýki en núna vita menn að það sem þarna var skrifað var allt rétt.
Og kona hugsar áfram og rifjar upp að við höfum samt haldið áfram á sömu braut og bætt mikið í á flestum sviðum síðan fyrir þessum áratugum. Jafnvel þó flestir vilji hafa það öðruvísi. Því við erum föst í þeirri meinloku-hugsun og blindu trú, að allar róttækar breytingar til góðs í þessum efnum þurfi að taka svo langan tíma, séu svo dýrar, séu ekki raunhæfar eða framkvæmanlegar. Að það sé einfeldni og barnaskapur að halda annað. Og þegar það þarf að gerast þannig missum við sjónar á lokatakmarkinu, við verðum örugglega líka löngu dauð sjálf hvort eð er áður og þá skiptir þetta minna máli fyrir okkur. En auðvitað er það bara kjaftæði og heilaþvottur aðila sem hafa hag af því að hlutirnir haldist óbreyttir. Og okkur hefur heldur betur verið sýnt það svart á hvítu undanfarnar vikur. Við erum nefnilega öll búin að fá upplifa það sem ekki átti að geta gerst. Og það gerðist af því að það var raunverulegur vilji til þess að koma því í framkvæmd. Þó það kostaði gríðarlegar fórnir og fjárhæðir. Nú vitum við að ÞAÐ ER HÆGT!
Þó margt ljótt megi segja um þennan mjóa þráð í lífsvefnum sem Covid 19 vírusinn er, þá hefur hann þó náð að hafa þau áhrif á vefnað undangenginna vikna og þeirra næstu hér á eftir, að mynstrið og myndin sem úr verður er annað en áður. Það er meira en nokkur persóna eða atburður annar hefur megnað að gera, mér vitanlega. Og fyrir það er kona óendanlega þakklát. Og vonar að fólk gleymi því ekki strax. Því með sama lífsstíl og áður mun vefnaður framtíðarinnar einkennast af inngripum slíkra þráða þegar vistkerfin í kringum okkur geta ekki lengur staðið á fótunum undir því álagi sem á þau er lagt.
Ég er nú farin að nálgast ána og hugsa enn; að nú sé mikil pressa á að ,,allt komist í gang aftur og að lífið verði sem fyrst eins og það var fyrir Covid”. Allt það ferli er undir tímapressu, rétt eins og við þurftum alltaf að vera að flýta okkur fyrir Covid. Nú þurfum við að flýta okkur að taka aftur upp þráðinn og halda áfram að vefa gamla mynstrið. Jafnvel þó sá vefnaðarveruleiki sé í raun hvorki raunhæfur né sjálfbær. Og um það er ekki einu sinni deilt. Jafnvel þó sá veruleiki þýði lakari framtíðarmöguleika og lífsskilyrði fyrir börn okkar og barnabörn. Og um það er ekki heldur deilt. Og jú, kona hefur líka áður heyrt að við séum að renna út á tíma. En það var í þveröfugu samhengi, þ.e. að ef mannkyn héldi áfram að vefa gamla mynstrið þá væri tími þess hér á jörð senn á þrotum. Og þá verður kona frústreruð á þessu öllu saman og efast um hlutina og spyr sig hundleiðinlegra spurninga. Og niðurstaðan verður sú að í staðinn fyrir að spítast af stað inná færibandið aftur, sé núna akkúrat tíminn til að skoða vel hvað það er sem við erum að flýta okkur að snúa aftur til og hvort það sé raunverulega það sem sé best fyrir okkur og heildina. Núna ættum við frekar að gefa okkur tíma til að rifja upp þessar vikur sem okkur voru gefnar til að vefa öðruvísi mynd, skoða mynstrið og sjá fyrir okkur hvernig við viljum vefa áfram. Hvað er raunverulega þess virði að snúa aftur til? Er ekki kominn tími fyrir nýtt mynstur, nýja liti, ný efni, nýja mynd?
En það er hindrun í hausnum á okkur sem þvælist voðalega mikið fyrir. Það er nefnilega eins og við getum ekki raunverulega gert okkur í hugarlund að hægt sé að gera hlutina öðruvísi, ef lífsgæði eigi ekki að heyra sögunni til. Og þessvegna höllumst við að því sem við þekkjum, jafnvel þó það sé ekki endilega gott nema að sumu leyti. Kúltúrinn okkar er þannig að það er eins það þurfi alltaf að taka tvíhliða afstöðu til alls og fólk sé í skotgröfum: annaðhvort velurðu að fara í torfkofann aftur og drepast úr eymd og volæði eða þú stígur uppí þotuna sem flytur þig hratt og fyrirhafnarlaust inní neysluheim allsnægta, sem við höfum dvalið í undanfarið. En hvað ef það þarf ekki að vera annaðhvort þetta eða hitt? Hvað ef það getur verið hvorutveggja? Gott og sjálfbært ... hvernig hljómar það ? Eða hvorugt ... eitthvað allt annað ? Hvað ef við hugsum útfyrir boxið? Hvað ef ...?!
Og kona heldur áfram að hugsa og hugsa á meðan hún stiklar á steinum yfir ánna og sér ekkert nema lausnir : Búandi hér á þessari eyju með öllum þeim auðlindum sem þar er að finna. Hreint loft, hreint vatn, hrein jörð og svo eldinn undir niðri sem gefur okkur orkuna. Hvað viljum við meira ? Með þessi grunn elenment í lagi, er okkar ágætlega menntuðu og vel gerðu þjóð lítið að vandbúnaði. Þetta eru meiri lífsgæði en flestir búa við. Og við erum bara örfá sem sitjum að þessu og virðumst því miður alltof oft ekki gera okkur raunverulega grein fyrir auðlindunum sem í þessu felast. Hvernig væri að byrja á að átta sig á því?
Síðustu metrana að húsunum er svo kona farin að hugsa um hvað það er gott að hafa fengið að fæðast á Íslandi, um fegurðina í lífinu, hvað allt er ótrúlega fullkomið, útpælt og stórkostlega merkilegt og svo mikilvægt að taka eftir því og skynja. Og þá er hún kominn hringinn, þ.e.a.s. í jarðarlyktina og ánægjuna yfir rigningunni og rokinu í íslenska vorinu á SV-horninu. Og um stelkinn sem er kominn til Íslands yfir hafið til að eyða hér sumrinu þó hann hafi ekki farið í sóttkví eins og aðrir túristar. Og þetta ferðalag leggur hann á sig þrátt fyrir að hér bíði hans feitir heimiliskettir í leit að dægrardvöl í tugþúsundatali, að ógleymdum ref og mink og jafnvel illa innrættum rollum sem sumar fúlsa ekki við nýjum og jafnvel stropuðum eggjum. Er það ekki bara stórkostlegt þetta líf og erum við ekki örugglega meðvituð um það og þakklát fyrir að fá taka þátt í því ? Og allt fer þetta í hringi og spírala með ekkert upphaf og engan endi, sem vinda sig áfram endalaust eins og hefur gerst alla tíð. Þaulreynd ferli sem þróast hafa í gegnum milljónir ára þar til það besta stendur eftir á hverjum tíma. Örugglega gætum við lært eitthvað af því og nýtt inní veruleika okkar og verkferla. Þetta kallast sjálfbærni og er tískuorð hjá pólitíkusum og náttúruverndarfólki. Það er eiginlega uppáhaldsorðið mitt .
Um leið og ég opna útihurðina á húsunum, dettur það ofaní hausinn á mér hvað það sé nú alveg hreint ótrúlega margt sem farið getur í gegnum huga einnar konu á þessari 200 m.leið ... og þetta er bara fyrsta ferðin þangað í dag ... Djíses !
Ég held að það væri til bóta að fleiri gengju í vinnuna sína !
<3
Komentar