top of page
  • harmony351

America great again, graðhafrar og geitalabb

Það er þessi dagur í dag, kosningar í Ameríku nýbúnar og enginn veit hver er sigurvegarinn. Svo er hér djúp haustlægð með rosalega miklu roki og ekkert hægt að gera nema hanga inni og reyna að vinna eitthvað í tölvunni sem kona hefur hummað fram af sér lengi af því það er svo leiðinlegt. Fór að hugsa í morgun þegar ég fauk útí fjárhús að kominn væri tími á nýtt blogg. Ekkert sérstakt að segja samt og þessvegna ekki búin að skrifa lengi – hef mest verið að lesa og hlusta á hvað aðrir hafa að segja þessa dagana. Og það er nú ekki svo lítið – allflestir virðast hafa mjög sterkar skoðanir á þeim helstu málum sem við erum að takast á við núna. Svo nefnd séu bara tvö sem allir þekkja þá eru það náttúrulega kosningarnar í Ameríku: Trump eða ekki Trump og svo Covid og milljón mál tengd því t.d. grímuskylda eða ekki grímuskylda. Ég veit ekki hvort Trump tekst að gera Ameríku great again eða hvenær við getum farið að eiga nokkuð eðlileg samskipti hvert við annað, án allskyns varúðarráðstafana, gúmmíhanska, grímu og spritts – en það situr í mér hversu það er orðið eitthvað svo áberandi í allri umræðu þessi tvíhyggja sem útilokar samtal. Heift og óbilgirni gagnvart skoðunum annarra. Þú ert annaðhvort með mér eða á móti. Ef þú ert ekki sammála mér þá ertu sjálfkrafa á móti. Rétt eins og ekki sé hægt að hafa aðrar skoðanir, eins og mál séu bara yfirleitt annaðhvort svört eða hvít – þó í flestum tilfellum séu gráu tónarnir eða jafnvel allir hinir litirnir alveg jafn skýrir.

Mér finnst þessi uppstilling eitthvað svo mikil einföldun á hlutunum en fyrir suma er það kannski nauðsynlegt til að geta skilið eitthvað í tilverunni þessa dagana. Það er alveg ljóst að hún er algerlega á hvolfi hjá mjög, mjög mörgum og það er svo langt frá því að það sé að fara að lagast. Held nefnilega að það sé jafnvel bara rétt byrjað.

Og nákvæmlega þessvegna er svo mikilvægt að við vinnum þetta saman, sýnum umburðarlyndi og þorum að horfast í augu við allskonar viðhorf og spurningar sem óhjákvæmilega hljóta að koma upp í svo flókinni stöðu. Láta ekki ástandi stía fólki í sundur og setja í fylkingar – ég og svo hinir, hægri/vinstri, með /móti. Fólk má alveg hafa allavega skoðanir.Nú og svo þurfum við heldur ekki alltaf að hafa skoðanir. Það er bara í besta lagi líka. Þegar upp er staðið þá erum við raunverulega öll í sama báti en ekki öll á sama stað í þeim báti og því er sú mynd sem við sjáum ekki alltaf eins – sjónarhornin eru misjöfn. Kærleikur, virðing, umburðarlyndi og samtal – við förum dáldið langt á því.

Að öðru leyti hef ég voða lítið að segja um kosningarnar í USA eða covid og ætla því bara að skrifa smá um það sem verið hefur í gangi hér þessa dagana:

Um daginn keypti ég átta unga geithafra til að ala upp og þjálfa fyrir geitalabbið mitt. Svo voru mér gefin tvö hafurkið í viðbót af nágrönnum okkar, þannig að nú á ég 10 mjög svo hressa unghafra. Ég hef stundum verið spurð að því þegar ég er að labba með fólki hvort ég búi til osta eða mjólki geiturnar mínar og hvað ég geri við kiðlingana sem fæðast ofl.í þeim dúr. Því er fljótsvarað að ég er ekkert í neinu slíku því það gerist bara ekki frá náttúrunnar hendi, að hafrar mjólki og þar með verða ekki til ostar (hafraostur ... sbr. sauðaostur – sem er reyndar mjög undarlegt orð sé farið útí þá sálma) eða fæði af sér kiðlinga án hjálpar kvenkyns geitar. Þannig að ég er bara með hafra. Punktur.

Og þeir eru geltir. Og þá spyr fólk – hversvegna ég sé að gelda þá. Ok, sennilega af sömu ástæðu og að hestaleigur eru ekki reknar á stóðhestum. Málið er einfalt. Ógeltir hafrar eru testósterón-búnt. Þeir eru svo graðir – sérstaklega á ákv. tíma ársins – að það er ekkert við þá eigandi og fullorðnir hafrar í því ástandi eru örugglega ekki neitt sérlega skemmtilegur félagsskapur að fara með í göngutúr þó ég hafi ekki prófað það. Þeir vilja slást og þeir vilja gera hitt og barasta alveg heilmikið af því og þeir nenna ekkert að vera að spá í þig eða einhvern annan sem hangir í þeim og er að reyna að eiga notalegan tíma í göngutúr úti í náttúrunni. Sú náttúra sem ræður ríkjum hjá þeim er annars eðlis, algerlega svarthvít og þar duga engar samningaviðræður. Til að gera sig sexý og ná athygli á þessum tíma sem nú er í gangi þá eiga þeir nokkur óbilandi ráð ,,uppí í erminni”: Eitt af því er að þeir míga í skeggið á sér, framaní sig og jafnvel uppí sig og úða þannig yfir sig hormónalyktandi efnum svo það fari nú ekki framhjá nokkurri huðnu (kvk.geit), keppinautum eða öðrum hversu miklu æðislegri þeir eru en hinir. Lyktin í fjárhúsinu /geitahúsinu mínu núna er því allsterk þar sem bæði hrútar og hafrar halda til og fengitíminn nálgast. Fullorðnu geithafrarnir mínir, sem alla jafna eru hinir ljúfustu og lausir við nokkurn slíkan dónaskap eru orðnir dáldið ruglaðir af sambýlinu við þessa hormónabolta og á innöndun þessara efna undangengnar vikur. Tilvera þeirra dáldið komin á hvolf eins og okkar mannanna á þessum síðustu og verstu þó af öðrum ástæðum sé.



Allt var þó nokkurnveginn undir kontról þar til nýju unghafrarnir tveir frá nágrönnunum mættu á staðinn. Þeir eru snemmbornir, gríðarstórir og alveg gersamlega hauslausir af náttúru. Því fór það svo að í fyrradag fékk ég dýralækninn í heimsókn. Hann gelti þessa tvo og nú bíð ég eftir að stemningin í hópnum fari aðeins að róast niður. Þá getur kona farið að eiga samtal við þá um tamningu og hugsanlegt geitalabb – jafnvel smá knús án þess að lykta eins og graðhafur næstu dagana á eftir.

Og fyrst dýralæknirinn var á staðnum þá gelti hann líka tvö forystuhrútlömb; lambakónginn hann Bjart Mána og Bárð hálfbróður hans. Þeir byrja líka í tamningu hjá okkur fljótlega þannig að ef vel tekst til þá verða tveir forystusauðir með í prógramminu næsta sumar. Ég er dáldið spennt fyrir því hvernig þeir þróast í vetur – þetta eru fyrstu sauðirnir sem við erum með og spurning hvort þeir verða svipaðir og geiturnar eða einhvernveginn allt öðruvísi.

Í úttlöndum labbar fólk með lamadýr, alpaca og asna í taumi – við eigum ekkert svoleiðis en við eigum hins vegar íslenskar landnámsgeitur og séríslenskt forystufé og mér finnst það eiginlega miklu merkilegra ;)

Nú eru forystuærnar komnar á hús, ganga við opið ennþá á meðan veður eru þokkaleg. Þrjár nýjar forystugimbrar skreyta húsin hjá okkur núna, ein þeirra er hún Birta sem ég skrifaði blogg um í vor þegar hún var nýborin. Gullfalleg og dáldið uppáhalds. Um síðustu mánaðarmót opnuðum við á heimsóknir í fjárhúsið og það kemur til með að standa til boða í vetur meðan kindur eru á húsi en í ljósi aðstæðna er óvíst hvort og þá hversu mikil aðsókn mun verða..

Nú á haustdögum veitti SSV / Sóknaráætlun Vesturlands mér styrk til markaðsmála fyrir upplifanirnar þ.e. geitalabbið, forystufjárheimsókn og sögugöngu með sagnaþul. Ég er núna að vinna í þeim málum með Markaðsstofu Vesturlands. Ný vefsíða er í farvatninu, en sú mun innihalda eingöngu það sem snýr að starfseminni í kringum upplifanirnar ásamt þeim verkefnum sem við erum að velta hér á Gufuá og snúa ekki beint að hrossum, tamningum eða reiðtygjum. Það er orðið svo mikið af öllu mögulegu inni á Harmony síðunni að við ætlum að brjóta það upp og einfalda. Nýja vefsíðan fer í loftið um leið og hún verður klár – sem verður fljótlega.

Annars erum við bara nokkuð góð miðað við allt og allt. Allir hressir og sprækir og þá getur kona eiginlega bara verið glöð. Veðrið líka búið að vera alveg frábært í haust og búið að ríða mikið út, temja og þjálfa. ... og svo er Fjórðungsmót framundan - eru ekki bara allir bjartsýnir og í stuði ?

Comments


bottom of page