top of page
harmony351

Grímur













Síðastliðið vor bjó ég mér til grímu. Hún var mótuð eftir andlinu á mér, steypt í gifs. Á hliðina sem fram snýr og aðrir sjá málaði ég dag og nótt, sól og mána, sumar og vetur, eld, vatn, loft – móður jörð og fullt af allskonar. Á hliðina sem inn snýr málaði ég það sem aðeins ég sé og snýr að sjálfri mér. Gríma þessi hangir uppi á vegg í vinnustofunni minni og verður ekki notuð til að verjast smiti heldur sem tákn fyrir þá þætti í sjálfri mér og í kringum mig sem skipta mig mestu máli, hvað ég sýni útávið og hverju ég held fyrir mig.

Ég á ekki von á að þið mætið mér með þessa grímu úti í búð eða í næsta partíi, og ef ég mætti á svæðið með hana á mér myndi fólki örugglega snarbregða við, jafnvel þó við kippum okkur ekki lengur upp við að sjá fjölda fólks með annarskonar grímur fyrir andlitinu á hinum ýmsu stöðum. Þetta eru ekki gifsgrímur heldur sóttvarnargrímur og eru tákn um ótta og aðsteðjandi ógn. Ótta við að smitast og ótta við að smita. Margir eru orðnir bæði tortryggnir og hræddir við annað fólk, sérstaklega útlendinga og svo mjög að þó þeir jafnvel sitji einir í bílum sínum eru þeir grímuklæddir. Smitskömmin varð til og tók við af flugkömminni sem Kófið drap. Allir sem eiga í nánum samskiptum við annað fólk og starfa á almannafæri eiga að vera með svona grímur til að minnka smithættu fyrir sig og aðra og því er það að útum allt sést fólk með andlitsgrímur.

Til samræmis við það pantaði ég mér fjórar flottar fjölnota smitvarnar-grímur frá vinkonu í Reykjavík, sem er margt til lista lagt – m.a.saumaskapur. Á þessum síðustu og verstu er náttla ekki hægt að láta sjá sig á almannafæri með ljóta grisju framaní sér – ekki vill maður nú missa stíl eða þannig þó tímar séu viðsjárverðir.

Héreftir get ég því sprangað um með andlitið hulið eins og versti bandit og enginn vírus vogar sér nálægt mér – skulum við vona.


Þetta eru annars undarlegir tímar. Á aðeins örfáum vikum hefur almenningur í heiminum afsalað sér allskyns áður sjálfsögðum réttindum, svosem að fara útúr húsi þegar hann hefur þurft eða viljað, atvinnu og eignum, námi, eðlilegum samskiptum við annað fólk og frelsi til að sýna andlit sitt svo eitthvað sé nefnt. Fyrir ári síðan hefði enginn talið það mögulegt að slíkt gerðist, hvað þá á heimsvísu. Næstu ár munu sjálfsagt leiða í ljós hvort þær aðgerðir og aðferðir sem notaðar hafa verið til að takast á við Kóvið hafi verið þær bestu eða hvort betra hefði verið að gera hlutina öðruvísi. Það verður að segjast að ekki eru þeir öfundsverðir ráðamennirnir sem taka ákvarðanir fyrir þjóðir heims um þessi mál. Eins er það spurning, hvort langtímaafleiðingar slíkra valdboða muni setja mark sitt á samfélög okkar í framtíðinni. Það er viðbúið, a.m.k. ef við höldum áfram á sömu braut í umgengni við náttúruna, matvælaframleiðslu og eyðileggingu á vistkerfum. Þá halda líka slíkir vírusar áfram að verða til, sagan endurtaki sig og almenningur dragi upp grímurnar.

En hvað sem því líður þá á ég nú fjórar flottar grímur með mismunandi mynstrum og litum sem ég set héðan í frá upp, eftir því í hvernig skapi ég er þá stundina, þegar ég þarf að hitta fólk og fara með því í geitalabb (þá verð ég örugglega oftast með froskagrímuna). En öllu jöfnu er ég ekki með neina grímu, enda þarf ég enga, verandi í þeirri forréttindastöðu að búa úti í sveit hafandi nóg pláss til að halda mig í 2+ m.fjarlægð frá nágrönnum og ekki síður vegna þess að í óeiginlegri merkingu nota ég grímur sparlega og líkar ekki vel að bera slíka vörn.

Sumir eru alltaf með grímur – eiga margar og setja upp til að fela sig á bakvið ef þeir treysta sér ekki til að sýna sitt rétta andlit. Eða ef þeir hafa eitthvað að fela.

Og vissulega getur verið gott að bregða á sig grímu við krítískar aðstæður eins og dæmin sanna og flestir eflaust þekkja. En það er heldur verra ef maður fer að ganga með grímu að staðaldri – bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Bendir til að umhverfið sé mjög varasamur staður þar sem ekki sé öruggt að vera.

Nú er fordæmalausu sumri tekið að halla og við tekur fordæmalaust haust. Grímuklæddir bændur smala grímulausum rollum í réttir og mega ekki lengur drekka af stút úr sama pela – jafnvel þó í honum sé spritt, er bannað að sofa hver ofaní öðrum í leitamannakofum (kannski ekki svo mikill söknuður af því) og alls ekki hóa í stórfjölskylduna til að aðstoða við rollurag haustsins. Sama verður eflaust uppi á teningnum í stóðréttum landsins – fordæmalaust og fámennt. Og hundleiðinlegt á köflum.

Því maður er manns gaman og þegar upp er staðið þá megum við ekki gleyma þvi hversu mikilvægt það er fyrir okkur sem manneskjur að geta átt grímulaus samskipti hvert við annað. Það er kannski það mikilvægasta af öllu.

Við verðum því að vona að veturinn heilsi okkur grímulaus og okkur hinum auðnist að taka niður grímurnar líka sem fyrst svo við getum haldið áfram að vera þær manneskjur sem í dag eru á bak við grímu. Að við þurfum ekki lengi enn að vera eins og froskar í framan þó við séum að hitta fólk, vera saman og hafa gaman.

Opmerkingen


bottom of page