top of page
  • harmony351

Í dýrðlinga tölu

Jesús minn, hvar endar þetta eiginlega !? Rollan komin inn í stofu, kötturinn í hundabúrið sem rollan átti að vera í – allt í ruglinu og Moli spyr bæði hissa og öfundsjúkur : Er þetta bara allt í lagi svona ? Hvar er eiginlega gert ráð fyrir mér í þessari sögu ??!


Og er það nema von að hundur spyrji þegar öll hans tilvera er allt í einu komin á hvolf.

Skýring: Sauðburður er hafinn hér á bæ og nánast allar rollurnar eru forystuær og nánast allar líka að bera í fyrsta skipti orðnar tveggja vetra – og þá getur nú ýmislegt gerst öðruvísi en bókin segir til um. Þær eru semsagt þessar elskur, búnar að hafa aðeins of langan tíma til að vera einar með sjálfum sér og tekur smá tíma að venjast nýju hlutverki. Það kemur til viðbótar almennt meiri vitsmunum og sjálfstæði en gerist hjá öðru sauðfé, þannig að þær taka ákvarðanir og standa við þær sem aðrar kindur kannski hugsa en halda ekki endilega út af jafn mikilli staðfestu

1. Í upphafi skyldi endirinn skoða. Forystuhrúturinn hann Loftur stökk útúr sjálfskipaðri sóttkví og klaustri sem hann deildi með Vísi vini sínum í haust – löngu áður en hans þjónustu var óskað. Leið hans lá beint uppá tún hvar þessar ágætu forysturollur spókuðu sig tilbúnar í tuskið. Því eru nú að fæðast lömb sem áttu ekki að koma fyrr en eftir mánuð eða svo.

2. Dagbjört (í höfuðið á Dagbjarti á Hrísum ræktanda sínum) ber í skjóli nætur tveimur lömbum, en af því hún kann ekkert á svoleiðis, verandi að standa í því alein og í fyrsta skipti, þá missir hún annað lambið frá sér og nær ekki að mynda elskuleg og uppbyggileg mæðgnatengsl við það – eins og er mjög mikilvægt að gerist sem allra fyrst hjá kindum og reyndar fleirum.

3. Næsta morgun kemur frú Sigríður í húsin og finnur lambið kalt og þreytt úti í horni, hvar það hafði komið sér fyrir til að mæta skapara sínum og segir við það: ,,Ó elskan mín, liggur þú þarna aleitt”, hendist yfir garðabandið og bjargar því snarlega, kemur því á spena og fær í það líf – og þar sem lambið er sérstaklega vel gefið, af áðurnefndu forystukyni þá lærði gimbrin það þarna á núll-einni að Sigríður væri góða mamman sem hafði látið bíða eftir sér þarna um nóttina og tók snarlega þá ákvörðun að fylgja hér eftir bara henni. Og til að toppa allt þá kom bjargvætturinn bókstaflega af himnum ofan eins og sviðsmyndin leit út frá sjónarhhóli lambsins, svo að um leið og það nú heyrir ómfagra rödd Sigríðar húsfreyju, þá horfir það til himins og sperrir eyrun og svarar samstundis – Mee-ee (voðalega krúttlega) sem útleggst sem: ,,Hér er ég móðir góð”. Sigríður er semsagt nánast komin í Guða tölu... a.m.k. dýrðlingur í lifanda líf - loksins !

4. Dagbjört forysturolla var bara glöð með það, enda löngu búin að gleyma að hún ætti svona mörg börn sjálf og fór því að berja á litlu Birtu (gimbrin heitir sesmsagt Birta og bróðir hennar sem er í uppáhaldi hjá mömmunni er hann Bárður) þegar henni þótti nærvera hennar orðin íþyngjandi. Því varð að gera eitthvað í málunum og Birtan því tekin heim í hús yfir nóttina svo ekki yrðu framin voðaverk á henni þarna fyrstu nóttina.

5. Nújæja. Forystufé er ekki mjög spakt, reyndar barasta frekar styggt og þar sem við ætlum að bjóða fólki að koma og skoða svoleiðis fénað frá og með í sumar, þá er nú svona líka tilvalið að vera með heimaling sem ekki sést undir iljanrnar á (eru lömb með iljar ?) um leið og einhver birtist á hlaðinu. Frú Sigríður lagði því hvorki mikinn metnað eða vinnu í að koma á sáttum milli Birtu og móður hennar, heldur vann frekar að því að stela henni og hafa sér og öðrum til skemmtunar heima á bæ í sumar.

6. En... það er ekki öllum skemmt. Mikill taugatitringur og spenna varð hjá hinum íbúum hússins þegar Birtan kom í bæinn. Melurinn hann Moli (sem er lítill hundur með stórt ego) ætlaði strax að éta hana enda engin ástæða til að vera neitt að bíða með það fram til hausts jafnvel þó góðgætið væri ennþá í umbúðunum. En þegar það mátti ekki og var þar að auki sett inní hundabúrið hans til að sofa þar um nóttina varð hann alveg verulega móðgaður og frústreraður (Moli verður oft svoleiðis) . Og ekki var Birta sjálf heldur sátt við þá ráðstöfun, grét hátt og lét all ófriðlega innilokuð og nokkuð ljóst að ekki yrði sofið mikið í litla húsinu sem við deilum með slíku áframhaldi – þannig að búrið var opnað og þessi núna tilvonandi aðal-forysturolla sættist á að sofa í stofunni ef frú Sigríður væri þar líka. Þá varð kettinum – sem á þar aðalbækistöð - verulega misboðið og gerði nokkrar tilraunir til að ná henni undir í fjölbragðaglímu – gimbrin hins vegar kunni ekkert í svoleiðs, þannig að hann ákvað að stela þá bara af henni hundabúrinu í hefndarskyni í staðinn. Og fylgjast með því hvernig málin þróuðust útum opið í hæfilegri fjarlægð til að fá góða yfirsýn yfir leiksviðið. Og Hringur ... hann er bara sætur og glaður með þetta allt.

Jájá, þetta er allt eins og það á að vera :)Comments


bottom of page