15.03.2020

Kominn aftur á einn af uppáhaldsstöðunum

 

Fyrir tæplega 20 árum þegar við bjuggum á Staðarhúsum, létum við stífla tvö stór framræst vötn á jörðinni og á merkjum hennar og jarðarinnar Gufuár, sem við búum á núna. Endurheimtum við það bæði vötnin Rauðutjörn og Meratjörn og votlendið þar í kring.

Eftir kuldatíð undanfarinna vikna eru nú öll vötn ísi lögð – þessi líka - og hægt að ríða á þeim, sem ekki hefur verið mikið gert af undanfarin ár. Ísinn á þeim hefur einfaldlega ekki verið nógu traustur þar sem frostakaflar hafa verið of stuttir. Veðrið þessa helgina hér vestanlands er svo sannarlega búið að leika við okkur og vetrarfegurðin á slíkum dögum engu lík. Og úr því tíðin er búin að vera svona góð til ísframleiðslu og veðrið svona flott þá náttúrurlega var ekki annað hægt en að nýta tækifærið og þetta flotta reiðfæri og kenna hrossunum að meta ísinn – því ís á vatni er ótrúlega skemmtilegt undirlag til að ríða á.

Því var það að í gær tókum við nokkur hross hingað heim til þess að ríða þeim hér í dag – á þessum flotta ís sem ekki er ósennilegt að fari nú að hopa enda fer nú vonandi senn að vora. Fyrst var reyndar hitað upp á Vatnshamarsvatni f.h. með Jóni á Báreksstöðum með einn fola sem aldrei hafði farið á ís áður. Og svo var lagt í hann hér og þær Perla og Hrund prófaðar á ísnum á Rauðutjörn í blíðunni.

Og mikið rosalega er þetta alltaf gaman – hrossin – ísinn – veðrið - umgjörðin.

Þvílíkt og annað eins – ekkert sem jafnast á við þessa dýrð !

26.01.2020

Breytingar

Eitt af því sem ekki verður umflúið í lífinu eru breytingar. Og á þessum skrítnu tímum sem við nú lifum er þetta orð örugglega orð orðanna – því við lifum nú tíma þvílíkra breytinga á nær öllum sviðum tilverunnar að annað eins hefur sjálfsagt varla gerst í mannlegri tilveru. Enginn fer varhluta af þessari staðreynd, og þar með ekki við heldur. Breytingarnar verða bæði utan þess sem við fáum við ráðið en einnig innan. Í lífi og tilveru okkar Benna hafa verið miklar breytingar undanfarin ár, svo mjög að okkur sjálfum – hvað þá öðrum hefur þótt nóg um. Og enn eru að verða stórar breytingar hjá okkur.

Við höfum ákveðið að hætta að bjóða uppá InHarmony Retreat sumarnámskeiðin sem við höfum verið með, en fara í staðinn útí ritstörf, handverk og annarskonar ferðaþjónustu tengda umhverfi og náttúru. Þetta þarf kannski ekki að koma á óvart, við höfum verið að þokast meira og meira í þá áttina undanfarin ár og helst í hendur við skógræktaráform og High nature value farming sem við erum að vinna í að verða hluti af.

Nú erum við byrjuð að undirbúa sumarið framundan og komum til með að flétta saman í skemmtilegan pakka upplifun og fræðslu fyrir fólk – bæði íslendinga og erlenda ferðamenn hérna á Gufuá í stuttum 1-2 klst. heimsóknum. Þar mun fólki gefast kostur á að kynnast landinu og búskaparháttum hér og þeim sem á jörðinni búa þ.m.t. búsmalanum okkar. Njóta samveru við hesta, kindur, geitur, hunda og ketti svo eitthvað sé upp talið undir leiðsögn okkar. 

Eins og áður munum við leggja okkur fram um að gera hverja heimsókn að gæðastund fyrir þátttakendur, ógleymanlegri heimsókn fyrir þá sem eru á ferðinni og langar að öðlast einstaka upplifun úr íslenskri sveit.

Óhjákvæmileg hliðarverkun þess að við hættum með reiðnámskeiðin okkar er að nú eigum við allt í einu nokkur hross sem við höfum ekki hlutverk fyrir í okkar starfsemi lengur. Þau verða því seld. Þetta eru hross á aldrinum  8-12 vetra, vel tamin reiðhross sem búin eru að standa sig frábærlega með gestina okkar. Traustir, verðmætir hestar eins og allir óska sér. Þeir sem eru að leita að þannig hestum geta haft samband við okkur, helst sem fyrst því fyrstur kemur og fyrstur fær.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

20.10.2019

Haustverkin

Það haustar að í rólegheitunum í Borgarfirðinum eftir sólríkasta sumar sem elstu menn muna. Þó kominn sé miðjur október er enn verið að heyja, tún eru græn og þau ræktarlegustu jafnvel enn að spretta og ég er hér að tala um Ísland, ekki Mið-Evrópu.

Við, sem erum svo lánsöm að fá að lifa og hrærast í tengingu við náttúruna keppumst við að klára þá hluti sem þarf áður en vetur gengur í garð og það frystir. Ýmiskonar frágangur á vetrarforða bæði fyrir skepnur og menn, viðgerðir á húsum, smalanir, girðingarvinna ofl. Nóg að gera á meðan hrossin fitna sældarleg lítið brúkuð í hausthaganum og dagurinn styttist. Allt er allgott og fyrir það ber að vera þakklátur.

Eitt af verkefnunum sem ljúka þarf núna á haustdögum er gerð nýrrar heimasíðu Inharmony.is sem núna er greinilega komin það langt að hún er farin í loftið. 

Þar er að finna ítarlegar upplýsingar fyrir þá sem vilja kynna sér það sem við ábúendur á Gufuá höfum að bjóða svosem hnakka, reiðkennslu og handverk tengt íslenskum hestum og landbúnaði. 

Facebooksíðan okkar verður áfram virk og við reynum að vera dugleg að setja þar inn sem oftast það sem þangað á erindi. 

Við erum svo heppin að eiga marga fylgjendur víða að úr heiminum sem hafa áhuga á að vita hvað við erum að gera, kaupa það sem við erum að selja, hlusta á hvað við höfum að segja, fá innsýn inní hvað við erum að hugsa, upplifun okkar og hverju við viljum miðla úr tilverunni hér uppi á skerinu góða. Fyrir það erum við óendanlega þakklát.  Þetta er fólk sem þyrstir í upplýsingar, fróðleik, sögur og myndir af íslenska hestinum, íslenskri náttúru, íslenskri sveit, af íslensku fólki – öllu því sem er okkar ástríða og lífsstíll.  Við erum sögumenn við Benni og við munum auðvitað segja sögur á þessar vefsíðu. 

Íslenski hesturinn og allt það sem honum fylgir þekkir engin landamæri og þær upplifanir sem samfylgdinni við hann fylgja eru uppspretta endalausrar gleði þeirra sem hans njóta. Sumum nægir að hafa hann í landslaginu sem hagaljóma, aðrir fá kikk útúr því að hlusta á hann tyggja fóðrið þegar hann er kominn á hús á veturna eða fylgjast með honum í leik með öðrum hestum. Enn aðrir brenna fyrir að sjá hvernig ræktunarmarkmiðin sem lagt var upp með árið áður líkamnast að vori í fallegu folaldi og margir reyna sig við að byggja upp samskipti við ótamið tryppi. Allflestir sækjast eftir að skapa skilning og samvinnu manns og hests, eignast vin, sálufélaga, kennara, ferðafélaga, reiðhest, gæðing.  

Það skiptir ekki máli hvernig við nálgumst hestinn, án hans væri lífið svo miklu, miklu tómara, þessi heimasíða ekki til, ég væri örugglega ekki að skrifa þessar hugleiðingar og sennileg að drepast úr leiðindum einhversstaðar. 

Við skulum bara muna að segja takk. Og við skulum ekki gleyma að segja takk við hann sjálfan fyrir allt það sem hann gefur okkur meðvitað og ómeðvitað og við tökum, - oft sem sjálfsögðum hlut, af því við getum það.

Og að lokum, takk fyrir að lesa. Við vonum að þið finnið eitthvað við ykkar hæfi á síðunni og hlökkum til að leggja inní veturinn með ykkur með ný og spennandi verkefni framundan. 

Sigga & Benni

Benni: +354 863-6895 Sigga: +354 893-1793